
Myrkrabörn
Tónlistarhátíðin Myrkrabörn var samhliða Myrkum músíkdögum í Kaldalóni í Hörpu 1. febrúar 2020. Hátíðin var ætluð börnum og hafði það markmið að gera samtímatónlist aðgengilega fyrir börn og fjölskyldur þeirra og standa fyrir skemmtilegum, upplýsandi og fræðandi viðburðum. Börn eru áheyrendur og tónlistarfólk framtíðarinnar og þau eiga að hafa aðgengi að fjölbreyttri menningarflóru. Nýsköpun í hverskyns list er nauðsynleg fyrir áframhaldandi þróun listgreina. Mikilvægur liður í því að ala upp tónlistarunnendur og tónlistarfólk framtíðarinnar er að kynna þau fyrir tónlistinni á unga aldri.
Dagskrá Myrkrabarna 2020 samanstóð af þremur viðburðum: Tónleikunum Klárt og kvitt með Stúlknakór Reykjavíkur og Auroru, Dótapíanósagan, tónleikar Tinnu Þorsteinsdóttur þar sem flutt voru verk sérsamin fyrir dótapíanó og tónleikarnir Haraldur kjúklingur og fleiri furðuverur með Hallveigu Rúnarsdóttur sópransöngkonu, Jóni Svavari Jósefssyni baritónsöngvara og Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara.
Listrænn stjórnandi: Gunnar Karel Másson
Verkefnastjóri: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Mynd af tónleikum Tinnu Þorsteinsdóttur, Dótapíanósagan