
Asparfell
Asparfell eftir Ásrúnu Magnúsdóttur & Alexander Roberts.
Alvöru blokkarpartý! Íbúar blokkarinnar í Asparfelli 2-12 í Breiðholti buðu gestum Listahátíðar í danspartý á heimilum sínum. Í íbúðum blokkarinnar býr fólk á öllum aldri, af mismunandi uppruna og kynjum, fjölskyldur, einstaklingar, vinir, pör og dýr. Húsráðendur opnuðu íbúðir sínar og gestum var boðið að rápa á milli íbúða og taka þátt í alls konar partýum með fjölbreyttum gestgjöfum. Í sumum íbúðum voru stór partý með hárri tónlist, full af dansandi fólki á meðan önnur voru rólegri, fámenn og lágvær - og svo allt þar á milli. Húsráðendur hönnuðu sinn heimavöll og stjórnuðu sínu partýi.
Nágrannar sameinuðu krafta sína og fólk sem kannski hittist ekki oft í daglegu lífi fagnaði samfélaginu sínu og hverju öðru – þó það væri bara rétt á meðan á blokkarpartýinu stóð. Gestir Listahátíðar dönsuðu með húsráðendum Asparfells, heyrðu sögur þeirra og kynntust daglegu lífi þeirra. Þannig verðum við öll betri nágrannar hvers annars.
Asparfell var sýnt á Listahátíð í Reykjavík árið 2018.
Asparfell
Höfundar: Ásrún Magnúsdóttir & Alexander Roberts
Framleitt af: Listahátíð í Reykjavík
Verkefnastjóri Listahátíðar: Friðrik Agni Árnason
Verkefnastjóri listamanna: Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Ljósmynd: Leifur Wilberg Orrason